Æskileg teymisvinna lögreglumanna og geðhjúkrunarfræðinga?

Gísli Kort Kristófersson lektor og Rósamunda Jóna Baldursdóttir
Gísli Kort Kristófersson lektor og Rósamunda Jóna Baldursdóttir

Geðsjúkir eru stundum vistaðir í fangageymslum þegar önnur úrræði eru ekki í boði. Rósamunda Jóna Baldursdóttir verkefnastjóri í lögreglufræði við HA segir vinnu við þennan málaflokki skapa mikið álag þar sem úrræði séu oft af skornum skammti, ekki síst á landsbyggðunum. Í Bretlandi hefur töluverður árangur náðst með teymisvinnu lögregluþjóna og geðhjúkrunarfræðinga í útköllum sem tengjast geðheilbrigði.

Á málþingi um geðheilbrigðismál og löggæslu sem haldið var við Háskólann á Akureyri sagði breskur lögreglustjóri í Leicestershire og varðstjóri við Breska lögregluskólann frá samstarfi lögreglumanna og geðhjúkrunarfræðinga á tilteknum svæðum í Bretlandi. Samstarfið felst m.a. í því að í útköll sem tengjast geðheilbrigði fer saman teymi lögreglumanns og geðhjúkrunarfræðings og hefur þetta samstarf verið árangursríkt.

Okkur hættir til að einangrast í sílóum

Stór hluti starfs lögregluþjóna tengjast geðheilbrigði og fíkn. Lögreglan er kölluð til vegna fólks í sjálfsvígshættu, þunglyndi, fíkn, geðrofi eða öðru. Rósamunda Jóna Baldursdóttir, verkefnastjóri í lögreglufræði við HA segir þau úrræði sem lögreglumenn hafi þegar kemur að geðheilbrigði séu oft þau að fólk sé vistað í fangelsi, heilbrigðisþjónustan þá ekki síst á landsbyggðunum, sé ekki alltaf í stakk búin til að takast á við verkefnið. Gísli Kort Kristófersson, lektor við heilbrigðisvísindasvið segir mjög athyglisverð sú hugmynd að búa til teymi geðhjúkrunarfræðinga og lögreglu, ekki síst þegar árangurinn í Bretlandi sé jafn gríðarlega góður og raun ber vitni. „Slíka teymisvinnu er ekki að finna á Íslandi, okkur hættir til að einangrast í sílóum.“ Segir Gísli.  

Fólk er bara sent heim

Rósamunda segir að það fyrsta sem lögreglumaður geri undir þeim kringumstæðum þar sem einstaklingur er að glíma við geðheilbrigði eða fíkn, sé að leita til heilbrigðisþjónustunnar „Á ýmsum stöðum, ekki síst á landsbyggðinni, þá er ekki alltaf starfandi geðlæknir, sálfræðingur eða annað sérhæft heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslu eða á sjúkrahúsinu. Þá lendir það hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi að meta ástand viðkomandi og ef það er ekki metið sem svo að viðkomandi sé vistaður á stofnuninni þá fer viðkomandi bara heim aftur. Það er líka oft þannig að saga viðkomandi breytist frá því að við komum á staðinn þar til heilbrigðisstarfsmaður ræðir við hann. Síðan gerist það oft að lögreglan er aftur síðar, jafnvel sömu nótt, kölluð til út vegna sama einstaklings.“

Gríðarlegur ábyrgðarhluti að vista fólk í fangageymslu

Rósamunda segir það líka gerast að fólk í þessari stöðu gisti einfaldlega fangageymslur „Stundum reynum við að tala fólk til að koma og gista á lögreglustöðinni, en það er ábyrgðarhluti að vista fólk, ekki síst ef það er vegna veikinda og hvaða reynslu og menntun lögregluþjónn þarf að hafa til að geta sinnt sjúklingi í fangageymslu.“ Rósamunda bætir við að þessi útköll séu oft um helgar eða nætur og að slíkri vistun lokinni fari fólk oftast bara heim „Nema að hægt sé að vista fólk t.d. á geðdeild í Reykjavík og þá þurfa lögreglumenn að fara með viðkomandi á staðinn og við sinnum þá ekki öðrum störfum á meðan.“

Geðsjúkdómar lægstir í virðingarstiga sjúkdóma

Á Íslandi eru samtalsmeðferðir ekki skipulega niðurgreiddar „Þó svo að rannsóknir sýni að fjölbreyttar samtalsmeðferðir séu árangursríkar þá erum við sem þjóð ekki að niðurgreiða þær skipulega. Ef það væri eitthvað sambærilegt inngrip varðandi sjúkdóma sem myndi virka svona vel, væri öruggt og aukaverkunarlaust, værum við þá ekki að niðurgreiða það? Ég held ekki“ segir Gísli Kort og bætir við að sjúkdómar séu oft á misjöfnum stað í virðingarstiga sjúkdóma „geðsjúkdómar eru oft lægstir í virðingarstiganum og innan þeirra eru síðan áfengis- og fíkniefnavandi lægstur. Ég vann t.d. á krabbameinsdeild og þangað bárust iðulega konfektkassar um jólin, sem við vorum að borða fram í mars eða apríl. Jólin 2004 var ég svo að vinna á geðdeild og beið auðvitað eftir konfektinu, en það kom einfaldlega ekkert. Það er ekki litið á þessa sjúkdóma með sambærilegum hætti“ segir Gísli og bætir við „Einu sinni var litið á bakverki sem aumingjaskap, en eftir því sem að myndgreiningartæknin varð betri og við gátum séð nákvæmlega hvað amaði að þá breyttist þetta. Það er erfitt að vera með þessa sjúkdóma sem við sjáum ekki. Þá berum við okkur líka oft saman við þann sjúka og ég hugsa til dæmis að í síðustu viku var ég eitthvað niðurdreginn og ég fór út að hlaupa, skellti mér í sturtu og reif mig upp á rassgatinu. Þess vegna held ég að það sama eigi að virka fyrir þig, þó þú sért ekki með sama heila og ég og ekki sama manneskjan. Við ákváðum að skipta líkamanum upp í einhverja parta, en við spurðum aldrei líkaman að því. Rannsóknir sýna t.d. að langvinnir verkir hafa áhrif á andlega heilsu og andleg heilsa hefur áhrif á líkamlega heilsu.“

Lykilatriðið að brjóta niður faglega múra

Flestum er ljóst að eitthvað þurfi að gera, en hvað? „Það þarf einfaldlega að koma til meira fjármagn í löggæslu og heilbrigðiskerfið. Við þurfum að móta betur verklagið milli þessara stétta. Fjárveitingar þurfa til þess að hægt sé fyrir fólk að leita til sálfræðinga, geðlækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna. Það er heldur ekki niðurgreitt þjónusta fyrir börn, nema að koma þeim í gegnum heilsugæsluna, en heilsugæslan annar því ekki.“ Segir Rósamunda og Gísli tekur í sama streng „Lykilatriðið er að brjóta niður faglega múra, þetta er eins og með líkamann, hjarta- og æðakerfið er eitt en stoðkerfið eitthvað annað, en þetta vinnur auðvitað saman í einni heild og það sama á við um kerfið, við þurfum því að skoða þverfaglega samvinnu. Það erum við að gera til dæmis í Háskólanum á Akureyri að mennta þverfaglega.“

Óásættanlegt að hafa ekki menntaða lögregluþjóna

Það er hægt að velta því fyrir sér hversu mikið væri að gera hjá lögreglunni ef öll mál sem tengjast geðheilbrigði og fíkn væru ekki lengur til staðar „lögreglumenn vinna með geðsjúkum, það er álag og úrræðin eru ekki til staðar og það er álag. Þetta eru verkefni sem lögreglumenn eru að díla við alla daga og voru ekki endilega menntaðir til. Þá hefur lögreglumönnum fækkað undanfarin ár og við erum ekki að fullmanna lögregluna með menntuðum lögreglumönnum, það er í raun alveg óásættanlegt.“ Segir Rósamunda.

Tilviljunarkennd staða á landsbyggðunum

Varðandi stöðuna á landsbyggðunum segir Gísli að það sé misjafnt og jafnvel tilviljunarkennt „Einhver ákveður að vinna einhvers staðar í einhvern ákveðin tíma en flytur svo eitthvað annað. Við erum ekki að hugsa heildstætt um landið þegar það kemur að þessu aðgengi. En svo er ekki alltaf hjálplegt að horfa aðeins á það sem vantar, við þurfum líka að horfa á það hvað er og hvernig hægt er að nýta það. Það eru oft hæfileikar á svæðunum sem hægt er að nýta, en þá skortir fjármagn til að skapa þessi teymi, við þurfum að breyta því hvernig við nýtum fjármagnið.“ Segir Gísli að lokum.

Hér má sjá þá í þættinum Landsbyggðir á N4, ræða þessi mál

 


Svæði

 

N4

LINDUHÚSINU   |   HVANNAVÖLLUM 14
600 AKUREYRI   |   412 4400   |   N4@N4.IS 

   N4 DAGSKRÁIN

   Skoðaðu nýjustu dagskrána hér.
   Eldri útgáfur