Eliza Jean Reid forsetafrú hélt erindi á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem fram fór á Akureyri í ár. Vestnorden er ferðamálasamstarf Íslands, Færeyja og Grænlands þar sem aðilar í ferðaþjónustu frá löndunum þremur koma saman og kynna sitt vöruframboð fyrir erlendum ferðaheildsölum. Í ár voru 600 aðilar í ferðaþjónustu saman komnir á Akureyri í tenglsum við kaupstefnuna sem er haldin annað hvert ár á Íslandi. N4 var á kaupstefnunni og ræddi meðal annars við Elizu.
„Þessi þrjú lönd eru ekki í samkeppni við hvort annað að mínu mati. Fólk kemur frá öllum heiminum að heimsækja þessi lönd hérna í Norður-Atlantshafinu. Við erum öll einstök, með okkar eigin kosti, okkar eigin náttúru og menningu. Við erum bara að hjálpa hvort öðru með því að vinna svona saman og kynna okkur löndin saman.“
Eru sömu áskoranir sem þessar þrjár þjóðir standa frammi fyrir þegar kemur að ferðaþjónustu?
„Meira en tvær milljónir ferðamanna heimsóttu Ísland á síðasta ári á meðan um hundrað þúsund fóru til Færeyja og sami fjöldi til Grænlands. Þannig að áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi eru ekki alveg þær sömu og hjá hinum þjóðunum. En á móti þá erum við öll að hugsa um að vernda náttúruna okkar og öll viljum við auka sjálfbærni í ferðaþjónustu. Þannig að það er margt sem við getum lært af hvort öðru. Það er margt sem sameinar okkur en á móti höfum við líka okkar sérkenni.“
Hver er helsti vandi ferðaþjónustunnar á Íslandi?
„Ég er náttúrlega í eðli mínu svo mikil bjartsýnis manneskja að ég lít sjaldan á hlutina sem vandamál. En ferðamönnum hefur vissulega fjölgað mjög hratt á stuttum tíma. Sérfræðingar hjá ríkinu og í ferðaþjónustu eru að skoða það mál mjög vel. Við erum að vinna að því að auka sjálfbærni og fræða ferðamenn sem hingað koma um landið og náttúruna, hvernig beri að umgangast hana, bera virðingu fyrir henni og vera öruggur á ferð um landið. Allt eru þetta mjög mikilvæg atriði. Mér finnst almennt að fólk líti ferðaþjónustuna hér á landi jákvæðum augum og Íslendingar eru stoltir af því að sýna landið sitt. En við þurfum að sjálfsögðu að vera meðvituð um þær áskoranir sem eru hér. Það ber að hafa í huga að þessir ferðamenn dreifast ekki jafnt um landið. Það þarf að gæta þess að dreifa ferðamönnum jafnar um landið allt og jafna árstíðarsveiflurnar eins og hægt er.“
Vestnorden er samstarf á sviði ferðaþjónustu. Geta þessar þjóðir unnið saman á stærri grundvelli, að þínu mati?
„Jú að sjálfsögðu. Við Íslendingar eigum ekki til betri vini en Færeyinga og Grænlendinga. Við erum nágrannaþjóðir sem horfa fram á sömu áskoranir varðandi náttúruna, veðrið o.s.frv. Þannig að við getum unnið saman að svo mörgu leyti og erum nú þegar í góðum sambandi varðandi margt, ekki bara ferðaþjónustu. Við erum öll að reyna að vera vinir, læra af hvort öðru og vinna saman.“
Allt viðtalið má finna á www.n4.is